Þú sem ert á jörðu

Ég las magnaða nýja skáldsögu: Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur. Sagan er verðlaunaefni og líkleg til frægðar í útlöndum.

Söguhetjan er ein kona ásamt hundi sem reikar um Norður-Íshaf og síðar mannauða Evrópu eftir einhvers konar eyðingu sem ekki er lýst en við ímyndum okkur breytt loftslag á jörðinni. Mér finnst magnað hvernig höfundurinn nær að ímynda sér þetta umhverfi í smáatriðum og gera það trúlegt. Konan í bókinni lifir sem veiðimaður og safnari. Samt kemur hún úr menningarsamfélagi, hún ólst upp við tækni og þægindi sem við erum vön, hún gekk í skóla og lærði tungumál. Sagt er frá að sem ung stúlka fyllti hún teiknibækur með myndum af dýrum í umhverfi sínu (sem virðist hafa verið Grænland). Í l0k sögunnar virðir hún fyrir sér hellamálverk steinaldarmanna. Þessi hringur utan um sögu mannkyns finnst mér magnaður.

Ég þekki fólk sem þolir ekki svona sögur: framtíðarhrollvekjur, heimsendasögur, dystópíur. Bíómyndir um svona efni eru oft kjánalegar, einhver keppni um hver getur ímyndað sem mestu hamfarirnar. En þessi bók gerir meira. Frásögnin er hófstillt en nær í stillingunni að innihalda meira. Ég les í henni hugleiðingu um hvað það þýðir að vera manneskja yfirleitt.

Ég flokka bókina ekki með heimsendasögum heldur með sögum um það að vera einn. Einu sinni var til bók sem hét Maðurinn er alltaf einn eins og það sé hlutskipti okkar í heiminum. Ég er ekki sammála því en samt hafa nokkrar sögur um það að vera einn í heiminum orkað sterkt á mig. Þar er fyrst að telja Palli var einn í heiminum. Hún fékk mig til að hugsa þessa mögnuðu hugsuns sem barn: hvernig væri að vera einn í heiminum? Svo er auðvitað Róbinson Krúsó og síðar Tom Hanks sem líka lenti á eyðieyju í myndinn Cast Away og lifði sem veiðimaður og safnari. Svo er sagan um Síðasta blómið sem endar á að ekkert er eftir í heiminum nema einn piltur, ein stúlka og eitt blóm.



Færðu inn athugasemd

Skúli töframaður

Íbúi alheimsins ættaður úr Kópavogi.

Hitt bloggið mitt: https://skulipals.blogspot.com/

Newsletter