Ómur sumra braga

Svona orti Páll Ólafsson einhvern tíma þegar „vetrarþoka grá“ vildi fjötra hann inni:

Það er líkt og ylur í
ómi sumra braga;
mér hefur hlýnað mest á því
marga kalda daga.

Orðið „bragur“ getur haft mismunandi merkingu. Nærtækast er að skilja það sem ljóð eða kvæði hér. Hann talar um í ljóðinu að mæða muni flýja og maður finni sólskinslönd með því að syngja kvæði. Þetta er sannarlega einn galdur ljóðlistar: að breyta hugarástandi okkar, hafa áhrif á tilfinningar okkar; að koma okkur í gott skap eða jafnvel gera okkur hrygg. Ljóð kunna bæði að stilla og trylla geð. Bestu dæmin um þetta eru sum ljóð Páls Ólafssonar: við verðum kát af því einu að syngja Fyrr var oft í koti kátt og við komumst í sólskinsskap þegar við syngjum Lóan er komin. Ég man ekki eftir neinu sorglegu ljóði eftir Pál en til eru ljóð sem maður fer að gráta af að lesa eins og Saknaðarljóð eftir Jónas.

Svo eru til ljóð sem höfða til hugsunar og skynsemi, allskonar heilræðavísur, spekiljóð, baráttusöngvar og ljóð sem gagnrýna kerfið. Ljóð geta hrifið bæði tilfinningar og skynsemi og ljóð gera margt fleira.

Orðið „bragur“ hefur samt aðra merkingu og þá merkingu heyri ég alltaf í þessari vísu: það þýðir líka bragarháttur, semsagt ytra form ljóðsins. Á tíma Páls Ólafssonor voru þulur og rímur tvö algeng en mjög ólík form ljóða. Þau hafa gerólíkan hljóm og hafa ólík áhrif. Á þeim tíma þekkti fólk auðvitað líka Passíusálmana, ljóð Jónasar og fleira með enn öðrum bragarháttum með öðrum hljómi sem virkuðu öðruvísi á tilfinningar og hugsun.

Innan rímnaformsins eru svo mörg tilbrigði. Nú til dags er hefð að telja tuttugu rímnahætti (Sveinbjörn Beinteinsson bjó til þá flokkun) en mörg góð rök eru fyrir að telja þá öðruvísi. Það breytir samt ekki því að rímnahættirnir hafa hver sinn hljóm. Við þekkjum best hljóm ferskeytlunnar, jafnvel ung börn sem ekki hafa alist sérstaklega upp við skáldskap geta trallað þessa hrynjandi hennar: ta-tí, ta-tí, ta-tí ta.

Fyrir utan ferskeytluna eru margir bragarhættir í rímnahefðinni og hver hefur sinn hljóm, sumir glaðlegir, sumir stríðnislegir, sumir íhugandi. Sá rímnaháttur sem helst hefur yl í sér er baksneidd braghenda. Eina fullkomnustu vísu með þeim hætti orti Páll Ólafsson:

Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini,
hlær við sínum hjartans vini,
honum Páli Ólafssyni.



Færðu inn athugasemd

Skúli töframaður

Íbúi alheimsins ættaður úr Kópavogi.

Hitt bloggið mitt: https://skulipals.blogspot.com/

Newsletter