Immanuel Kant
Gagnrýni hreinnar skynsemi
Fyrsti hluti hinnar forskilvitlegu frumþáttafræði
Forskilvitleg skynjunarfræði
§ 1
Eina leiðin til að fá milliliðalausa þekkingu á hlutum er að skoða þá. Öll hugsun, sem miðill þekkingar, vinnur úr skoðun á viðfangi, hvernig svo sem þekkingu er annars háttað og eftir hvaða leiðum sem hún tengist viðfangi. Skoðun verður aðeins til með því að eitthvert viðfang er okkur gefið; þetta er aðeins mögulegt, alla vega fyrir okkur mannfólkið, með því að viðfang hreyfir við huganum á vissan hátt. Hæfileikinn (móttækileikinn) til að fá hugmyndir með þeim hætti sem viðfang hreyfir við okkur heitir skynhæfni. Fyrir miðlun skynhæfninnar semsagt eru hlutir gefnir okkur og aðeins hún færir okkur skoðanir; með skilningnum hinsvegar eru skoðanir hugsaðar og af honum spretta hugtök. Öll hugsun hinsvegar verður að tengjast skoðunum, beint (directe) eða óbeint (indirecte), fyrir tilverknað ákveðinna einkenna og þar með (hjá okkur) að endingu tengjast skynhæfni því að með engum öðrum hætti eru hlutir okkur gefnir.
Áhrif viðfangshlutar á hugmyndahæfnina, að því leyti sem hann hrærir við okkur, kalla ég kennd. Sú skoðun sem tengist hlut fyrir tilstilli kenndar kallast rauntæk. Óákveðið viðfang rauntækrar kenndar heitir fyrirbæri.
Það sem í fyrirbæri samsvarar kennd kalla ég efni fyrirbæris en það sem gerir að mergð fyrirbæris getur skipast eftir ákveðnu samhengi kalla ég form fyrirbæris. Það sem kenndir geta raðast í og þar sem þær geta tekið á sig ákveðið form, það getur hins vegar ekki verið kennd. Þar af leiðandi er allt efni fyrirbæris gefið okkur eftirá en form fyrirbæris hlýtur að liggja fyrirfram tilbúið fyrir það í huganum og ætti því að mega rannsaka einangrað frá allri kennd.
Ég kalla hugmyndir hreinar ef ekki fyrirfinnst neitt í þeim sem tilheyrir kennd. Þar af leiðandi mun hreint form skynrænna skoðana yfirleitt, en í því er öll mergð fyrirbæra í ákveðnu samhengi skoðuð, finnast fyrirfram í huganum. Þetta hreina form skynhæfni mun því sjálft heita hrein skoðun. Þannig að þegar ég sértek frá hugmynd um efnislegan hlut það sem skilningur hugsar um hann eins og verund, kraft, deilanleika o.s.frv. sem og það af henni sem tilheyrir kennd eins og þéttleika, hörku, lit o.s.frv. þá hef ég enn eitthvað eftir í þessari rauntæku skoðun, nefnilega rúmtak og lögun. Hvort tveggja tilheyrir hreinni skoðun sem á sér stað líka án virkilegs viðfangshlutar sem einbert form skynhæfni í huganum.
Vísindi um allar grunnreglur skynhæfninnar kalla ég forskilvitlega skynjunarfræði. Slík vísindi, sem samanstanda af fyrsta hluta forskilvitlegrar frumþáttafræði, til mótvægis við hin vísindin sem innihalda grunnreglur hreinnar hugsunar og nefnist forskilvitleg rökfræði.
Í forskilvitlegri skynjunarfræði munum við því fyrst einangra skynhæfni með því að við aðskiljum allt sem skilningurinn hugsar með hugtökum sínum í henni, til þess að ekkert sé eftir nema rauntæk skoðun. Næst munum við ennfremur aðskilja frá henni (rauntækri skoðun) allt sem tilheyrir kennd til þess að ekkert verði eftir nema hrein skoðun og eintómt form fyrirbæranna sem er hið eina sem skynhæfni getur gefið fyrirfram. Í þessari rannsókn mun koma í ljós að til séu tvö hrein form skynrænnar skoðunar, nefnilega rúm og tími, en næst munum við taka til við íhuga þau.
Færðu inn athugasemd