Rímur af Hvanndalabræðrum: Inngangur

Fyrsta ríma: https://skulipals.blog/2023/02/26/rimur-af-hvanndalabraedrum-eftir-thord-grunnviking-fyrsta-rima/

Önnur ríma: https://skulipals.blog/2023/02/26/rimur-af-hvanndalabraedrum-onnur-rima/

Þriðja ríma: https://skulipals.blog/2023/02/27/rimur-af-hvanndalsbraedrum-thridja-rima/

Hér birtast í þrem færslum rímur eftir Þórð Þórðarson Grunnvíking (1878–1913) um frægðarför þriggja bræðra úr Hvanndal út í Kolbeinsey 1616. Ég hef skrifað þær upp eftir handriti höfundarins sem varðveitt er í Þjóðarbókhlöðunni (Lbs. 2643, 8°). Á titilsíðu kemur fram að hann hafi skrifað handritið á Hlöðum við Ingólfsfjörð 1903–1904 en ort þær árið 1902 á Krossnesi.

Sagan sem rímurnar segja er stórmerkileg. Árið 1616 fóru þrír bræður í rannsóknarleiðangur út í Kolbeinsey að undirlagi Guðbrands biskups Þorlákssonar. Aðalheimildin um ferðina er kvæði sem ort var eftir fyrirsögn eins bræðranna. Saga leiðangursins og þessa kvæðis er skilmerkilega rakin í grein eftir Árna Hjartarson í Náttúrufræðingnum 2005. Hana er hægt að sjá hér: https://timarit.is/gegnir/000859846.

Kvæðið sem er frumheimildin um ferðina er hægt að lesa hér: https://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=2522

Ég hef skrifað rímurnar upp eftir handritinu og fært til nútímastafsetningar. Slík breyting á texta er viðkvæm og álitamál koma upp í hverju skrefi. Eiginlega er stafsetning höfundarins partur af svipmóti kvæðisins þannig að vel mætti rökstyðja að birta kvæðið stafrétt eins og höfundurinn skildi við það. Kannski geri ég það einhvern tíma.

Í rímunum eru kenningar og heiti í nánast hverri línu. Gaman og fróðlegt væri að gera lista yfir þær allar með útskýringum. Það bíður betri tíma en í bili dugar að taka fram að langflestar tákna þær sjó, skip, eða menn.



Færðu inn athugasemd

Skúli töframaður

Íbúi alheimsins ættaður úr Kópavogi.

Hitt bloggið mitt: https://skulipals.blogspot.com/

Newsletter