Rímur af Hvanndalabræðrum: Fyrsta ríma

1 Ríma
(ferskeytt)

Ef að hlýðir öldin greið
á með huga rörum
þá skal hrinda Þráinsskeið
þagnar fram úr vörum.

2
Mitt þó tíðum ljóða lag
lítið sumir virði
Jens mig smíða beiddi brag
bóndi á Norðurfirði.

3
Fyrir vildi vofna bör
vísur smíða ef kynni;
gæti máski Gjalars knör
glatt hann einu sinni.

4
Segja nenni seggjum hér
sinni meður hljóðu:
sá er knái korða ver
kunnugur mér að góðu.

5
Fyrri landi Ísa á
æði mennta fjáðu
mörgum sögum fríðum frá
frægu skáldin kváðu.

6
Fyr þeir brandi beittu máls,
báru og geðið séða,
nú eru hyggnir hlynir stáls
hættir rímur kveða.

7
Þó ég fyrir bauga bör
braginn þennan smíði
get eg til að Tvíblinds knör
teljist laus við prýði.

8

Enda þennan mansöng má,
meiðir grana drögu,
bókin liggur borðinu á,
byrjar upphaf sögu.

9
Upphaf segi efnis það
ýtar happa stóru
Kolbeinseyju kátir að
kanna leiðir fóru.

10
Frá er nokkuð fróni hríms,
fregnir spjalla nógar,
talin undan eyju Gríms
er tólf mílur sjóar.

11
Alla vega umgirt sjá,
ýtum það ég kynni,
átján mílur einnig frá
Eyjafjarðar mynni.

12
Könnuðu fáir þegnar því
þundar grannan svanna;
Mevenkljent er kölluð í
kortum sjómannanna

 

13
Þá Guðbrandur byskup skýr
bóka gætti að safni
bjó í Hvanndal tjörgu týr,
Tómas var að nafni.

14
Kvongaður var kappi sá
kyrtla hrund án baga
og með henni arfa þrjá
átti, greinir saga.

15
Voru bræður miklir menn
mjög í æsku blóma,
Bjarni, Jón og Einar enn
ullar hétu skjóma.

16
Bjarni elstur bræðra var
best með dyggðir svinnar,
tuttugu og átta á búknum bar
bauga aldarinnar.

17
Jón og Einar ötull þá
innan tvítugs vóru,
frekstir taldir foldu á
fyrðar krafta stóru.

18
Nær á grundu gengu hér,
greinir fagurt letur,
fimmtánhundruð ártal er
áttatíu betur.

19
Hlýrar yfir ýta þá
afl og hreysti báru
snjóa kaldri ekru á
ofurhugar váru.

20
Þó að aldan bretti brún
blá í vanda standi
runnar stáls um rostungs tún
riðu banda gandi.

21
Klökugri frá konu þunds
kátir bræður þora
létu tíðum hestinn hlunns
höfrungs völlinn spora.

22
Vosbúð stórri vanir og
voru sjómenn góðir
afla þáðu um þrömmungs vog
þórar branda rjóðir.

23
Fékk Guðbrandur biskup þá
börva gildu hneita
ýta fleyi yfir sjá
og Eyjar Kolbeins leita.

24
Gengu bræður þreknir þrír
þvert að landa hringi
háfs á engi hreystin knýr
hrindu áttæringi.

25
Bjarni fyrir bræðrum var,
beitir gildi sverða,
nestis föng og nauðsynjar
nú til valdi ferða.

26
Græðis út á gengu jór
gautar Fofnis haga,
síðan lætur seima þór
segl að húnum draga.

27
Undan landi lægis hjört
létu drengir synda
sundur þandi seglin björt
svalur Hrugnir vinda.

28
Þegar sól í síla grund
seig af himins boga
hálft Grímseyjar hafði sund
hlaupið jórinn voga.

29
Þá kom vindur austan á,
Ægis dætur glæddi,
og um gnoðar borðin blá
bólgin hrönnin æddi.

30
Dimm mjög þoka fylgdi frí
feikna meður vindi
ekkert sáu þegnar því
þorska eftir strindi.

31
Grenja vann á súðum sjór,
sundur kólgan brestur,
um tvö dægur dælu jór
dreif í hafið vestur.

32
Neinn ei kostur núna var
norður halda stefnu,
kaðals valinn vigur þar
vóð um landið hrefnu.

33
Stórsjór var og stormurinn
steypiregni meður
en flyðru grunda fákurinn
foldu rostungs treður.

34
Náðu heldur harðan tón
hefja vindar fornir
allt í kringum ára ljón
ægis sungu nornir.

35
Loga hlýri byrstur blés,
bjartar voðir þandi,
drengir náðu hesti hlés
hleypa þá að landi.

36
Bláum drundi í boðunum,
borða mar vann skeiða,
vindur söng í voðunum,
veinuðu böndin reiða.

37
Refur trés ei mæðast má
mjög á vendingunni,
á Hrauni í Fljótum fyrðar ná
fríðri lendingunni.

38
Tvo um sólar hringa hér
höfðu bræður gildir
hrakist yfir víðan ver
verkum snilldar fildir.

39
Hvíld sér góða gjörðu fá
gautar valdir skjalda,
seinna náðu aftur á
ægi kaldan halda.

40
Þó að svona tækist til
téða ferðin þessi
aftur nam á hnísu hyl
heina keyrast Bessi.

41
Kuggnum lögðu landi frá
lundar sævar blóma,
ríman fyrsta þrýtur þá,
þiggi börinn skjóma.

[Önnur ríma kemur hér: https://skulipals.blog/2023/02/26/rimur-af-hvanndalabraedrum-onnur-rima/]



Færðu inn athugasemd

Skúli töframaður

Íbúi alheimsins ættaður úr Kópavogi.

Hitt bloggið mitt: https://skulipals.blogspot.com/

Newsletter